1.11.2008 | 13:36
Uppurið traust
Fúkyrðaflaumurinn ætti að öllu jöfnu að standa út úr mér núna, gott ef ekki hringast niður á gólf því svo langur gæti hann verið. Ég hef þó blótað minn kvóta og er núna eftir lausnum að róta.
Hversu marga milljarða erum við að fá lánaða? Hversu mörgum milljörðum sækjumst við eftir? Í hvað fara þessir milljarðar? Muna konur og menn þegar stigið var í pontu og því lýst yfir að ekki skyldi taka lán fyrir þúsundir milljarða því það hefðu stjórnvöld ekki leyfi til að gera? Man einhver það eða er ég stiginn inn í skáldsöguna 1984? Með því væru ófæddar kynslóðir skuldsettar og byrðin á þeirra herðum óverðskulduð. Ég heimta að fá að vita skilyrðin fyrir lánunum. Ég vil vita hvað verður selt undan okkur. Ég vil vita hve hár reikningur per íbúa í landinu verður, ég vil vita hvort þetta sé allt gert til að bjarga fársjúkum gjaldmiðli til handa stórfyrirtækjum en ekki fólki. En helst af öllu vil ég vita að stjórnin fari frá, því hún hefur ekki örðu af trausti frá mér lengur. Ég stend mig að því að horfa á fréttatíma, sjá ráðamenn tjá sig loðið; en það litla sem ekki er loðið býst ég við að sé logið. Þetta er ekki nokkurt viðhorf sem maður á að hafa til leiðtoga sinnar þjóðar. Hvað er því til ráða?
Menn sem ég hef miklar mætur á segja að stjórnarkreppa ofan á bankakreppu og gjaldeyriskreppu væri aðeins leið að glundroða. Ég trúi þeim og ég vil ekki glundroða. Ég vil hins vegar ekki að fólk, sem ég treysti ekki, taki ákvarðanir á þessum viðkvæma punkti sem hefur áhrif út yfir gröf mína og dauða. Ég var ESB sinni en er ekki viss lengur. Ég var neytandi par excellance, fylgdi hnattvæðingu, tók yfirdrátt, flottræfill, ginnkeyptur af útrásinni, öskraði: Ísland best í heimi!
Núna er þó ég vonsvikinn, ráðvilltur og tortrygginn. Tortryggni er eitt það versta. Hún færist frá því að vera eingöngu kennd við stjórnmálamenn og útrásarfólk yfir á fréttmenn, skýrendur atburða og spekúlanta. Ég nenni ekki slíku vænisjúku kjaftæði að hugsa í sífellu hverra hagsmuna hver sé að gæta. Það er skýlaus krafa mín að ég sé ekki matreiddur á lygum og eigi að líða heimskulega eftir á fyrir að hafa trúað lygunum. Hvernig vatt þessi kreppa upp á sig?
Var það ekki að traust ríkti ekki milli banka og því lánaði enginn neinum neitt? Þegar græðgin verður yfirsterkari traustinu hlýtur samfélagið að riða til falls. Það er jú grunnforsenda þess að við erum hópdýr en ekki einfarar. Traust er nauðsyn og ef ég treysti ekki forsjáraðila mínum í sem stærstu samhengi (framkvæmdarvaldi) hlýt ég að finna mér annan. Eigum við ekki að treysta traustið áður en eitthvað verra gerist. Hver ætlar að hugsa um fólkið í landinu? Ekki bara þá fátæku, ekki bara þá ríku, þá veiku, landsbyggðarmenn eða miðborgarbúa, heldur alla! Hvar er leiðtogi þjóðarinnar? Hvar er þann mann að finna sem eining og traust ríkir til? Þann mann verður að finna áður en iðnaðarmenn, kennarar, heimspekingar, rithöfundar, leikarar, dansarar, tónlistarmenn, læknar, auðmenn og fleiri fara að hugsa sér til hreyfings!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.