Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.11.2008 | 13:10
Fundurinn: Iðnó/Austurvöllur
Hér læt ég fylgja óstytta grein sem birtist í Morgunblaðinu á afmælisdegi afa míns, Aðalsteins Braga Agnarssonar. Hann er látinn. Hann stundaði sjómennsku lengi vel og var í millilandasiglingum á farskipum Eimskipafélagsins. Ég er þess viss að hann er mér sammála, hefði orðið 93 ára í dag og var góður vinur minn.
Fundurinn:
Á laugardag var dagurinn sem ég vaknaði. Óviss um hvernig stemningin yrði á borgarafundi Iðnó í björtu dagsljósi lagði ég sofandi af stað niður í bæ. Ég fann mér stæði við ráðhúsið og tölti gegnum það. Ég bauð skrifstofudömunum góðan dag og gekk út úr ráðhúsinu yfir brúna í átt að Iðnó.
Fundurinn var þegar byrjaður þar sem ég náði föstu landi undir fót og hátalalarar endurómuðu það sem Pétur Tyrfingsson, sálfræðingur, var þá fram að færa. Myndavélar voru einnig á sveimi og þó nokkur erill í kringum húsið. Þegar inn í anddyri var komið sá ég að ekki var hægt að komast með góðum leik inn í sal svo ég nýtti mér aðstöðu þarna til kaffidrykkju og heyrði jafnframt vel hvað sagt var. Fyrstu framsögu lauk og önnur tók við: Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur, tók næst til máls og talaði um ófarir Seðlabanka Íslands, gott ef áframhaldandi vangaveltur um IMF voru til umræðu. Það skildi tvö eftir: Höllu Gunnarsdóttir, blaðamann sem flutti saklausan pistil til Björgólfs Guðmundssonar sem innihélt beinskeyttar og hreinskiptnar spurningar barns. Þetta hlutverk lék hún vel. Að lokum var fjármálaráðgjafi að nafni Ingólfur Ingólfsson: Hann talaði af sannfæringu um frystingu á lánum í fjórum prósentustigum þar til verðbólgumarkamiði með vikmörkum yrði náð, þ.e. 2,5% +- 1,5%. Þá yrði hægt að skipta yfir í breytilega vexti sem háðir yrðu markaðslögmálum. Ég rumskaði í fyrirspurnartíma þegar Valgerður ehf. hóf sitt svar á því að reyna að sverja ástandið af sér; hún væri jú ekki í stjórn. Salurinn tók dræmt í og neyddist hún til að söðla um í miðju svari. Í miðri ræðu Lilju hafði ég tekið eftir manni sem ég vissi hver var. Og það sem furðu mína vakti var að hann, að mínum dómi besti ræðumaður síðasta borgarafundar, var ekki á frummælendaskrá. Maðurinn var Einar Már Guðmundsson, Vekjaraklukka Íslands og rithöfundur, en ég fékk fréttir af því hann skyldi halda ræðu úti á velli Austurs. Hálfupprifinn ákvað ég að hlýða á fundinn.
Einn míns liðs arkaði ég niður og bjóst ekki við margmenni, setti mér þá stefnu að sækja kaffibolla og tylla mér á bekk við steinhlöðnu blómabeðin. Er ég beygði inn frá uppgreftrarsvæðinu við hlið Alþingis í átt að vellinum blasti þó önnur sjón við mér. Uppraðaðir mótorhjólafákar stóðu framvörð gegn Alþingishúsinu, á að giska tvær tylftir, og aragrúi fólks þeim að baki, tvístrað um völlinn í bið eftir að ræðuhald hæfist. Fundarboðið; reykspólun þessara tveggja tylfta með látum og meðfylgjandi skýi, setti Alþingi í hvarf og virkaði vel því fólk hélt áfram að streyma inn á völlinn. Ég hélt göngu áfram yfir völlinn í átt að kaffibollanum og horfði á svipbrigði fólksins sem ég gekk framhjá; þau voru jafn fjölbreytt og fólkið var margt. Við norðvesturhorn torgsins hitti ég hjón sem voru að koma á völlinn. Mér þótti vænt um að sjá einingu þeirra og bjartsýni. Ég hugsaði með mér að ef fólk gæti tekið þau sé til fyrirmyndar væri strax mikilvægur sigur unninn. Því bjartsýni og mótmæli þurfa ekki að vera nema tvær hliðar á sama teningi. Jæja, kaffið var í höfn en bekkurinn orðinn táknmynd þess sem ég vildi ekki; þ.e. að standa hjá og fylgjast með svo ég tók bollann inn í þvöguna. Ég vildi vera í hópnum sem viðraði skoðanir sínar í vissu. 3 ræður liðu og Sigurborgu Árnadóttur, fréttamanni RÚV í Finnlandi á kreppuárum, tókst að sannfæra mig um að ,,finnska leiðin svo kallaða; aðhald og sparnaður í peningamálum meðan byggt er upp þekkingarsamfélag, muni verða of sársaukafull. Viðvarandi atvinnuleysi og fólksflótti; kreppa á okkar mælikvarða enn þann dag í dag. Aukin tíðni sjálfsmorða, þunglyndi heillar þjóðar sem var nýkomin undan hæli Sovét og tók stefnuna á ESB, með myntbandalagi og öllu klabbinu. Við eigum þó vitaskuld að draga lærdóm af frændum okkar Finnum og spara sem frekast við getum.
Vekjaraklukkan tók næst til máls. Krafturinn í orðunum dundi yfir Austurvöll, til veggja í kring og aftur niður á völl. Sambandi var endanlega náð við fundargesti. Bakgrunnslæti hurfu, skvaldur lognaðist út af og fólk hlustaði, m.a.s. eggjakastarar. Þegar yfir lauk hafði ég öskrað úr mér síðustu þreytunni heyr heyr, já og nei og klappað dyggilega fyrir góðri ræðu sem ég treysti mér ekki að flytja hér í fáum orðum. Ég var vaknaður! En hverju var verið að mótmæla?
Fólk verður að gera það upp við sig hvert og eitt hvaða framhald verður á. Þar til fæst frambærileg forysta í friðsöm, skilvirk og siðsöm mótmæli verðum við þó að sameinast um eitt! Ríkisstjórn, Seðlabanki, Fjármálaeftirlit, forstjórar fjármálafyrirtækja, fjárfestar og síðast en ekki síst við brugðumst. Ég var persónulega ginnkeyptur af útrás, Vinstri Grænir voru hættir að kvarta og verkalýðsforystan gjörsamlega lömuð í öllu þessu góðæri. Ég tel mig axla ábyrgð með því að mótmæla, kalla á betra kerfi, með heilli mönnum og þeir sem klikkuðu verði dregnir til ábyrgðar. Ekki einungis við fólkið.
Ég hef engu tapað í kreppunni nema 500 krónum aukalega sem ég borgaði fyrir bók á Amazon.com og er að mestu lánalaus. Fólkið í kringum mig gat allt eins verið í þeim sporum að hafa misst vinnu, lánstraust, húsnæði eða bíl. Kannski stefnir í allt af þessu. Ég hugsaði mig því um hverju ég væri að mótmæla. Og það stóð svo sem ekki á svarinu: Ég var að mótmæla því að samnemendur mínir í sagnfræði hafi þurft að hætta til að standa skil á hækkandi lánum meðan námslán haldast óbreytt. Ég mótmæli því að aðrir samnemendur mínir komi til með að fara úr landi sem er þeirra vilji og býgerð stendur til. Ég mótmæli því að sérfræðingar og verkalýður sem annað geti farið hugsi sér til hreyfings, því stéttir hverjar; lækna, verk-, skipulags-, tækni-, vél-, kerfis-fræðinga, kennarar, pípara, lögfræðinga, smiði, athafnamenn, fjárjöfra eða stjórnmálamenn, eigum við ekki að hrekja úr landi. Námskeið fyllast nú um búsetuflutning til Norðurlanda og þetta er allt fólk sem þarf að uppbyggingu Íslands að koma. Hvort sem Jón Ásgeir endi á lyftara og Sjálfstæðisflokkur í stjórnarandstöðu. Ég mótmæli reglugerðarleysi í kringum fjármálaumsvif. Ég mótmæli því að íslenskir bankar hafi opnað fyrir þann kost að við gætum átt yfir höfði okkar þúsundir milljarða skulda. Ég mótmæli því að stjórnvöld hafi leyft þessum bönkum að starfa svona. Ég mótmæli því að Geir svari ekki kröfum allra annarra flokka Alþingis og reki ekki Davíð Oddsson. Ég mótmæli því að fá ekki að vita neitt og ég mótmæli persónulega láni Alþjóðagjaldeyrissjóðs og ESB aðild, því bak okkar er brotið nú og skilyrðin að öllum líkindum hörð sem við göngumst við í hvoru tilfelli sem er. En aðallega mótmæli ég ykkur: Svefni 99% þjóðarinnar sem ætlar að láta þetta yfir sig ganga og hvet ykkur því til að mæta á Austurvöll, full af hugmyndum og bjartsýni um framtíð með réttlæti í huga en ekki hefnd.
Sindri Viðarsson, stúdent við HÍ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.11.2008 kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2008 | 17:14
ÁFRAM ÍSLAND!
Svona hlutir bjarga manni frá þessum andskotans leiðindum sem ríða yfir. Fyrst rúlla stelpurnar okkar Írum upp og negla sig inn í lokahóp EM í Finnlandi. Svo stend ég núna upp hálfringlaður eftir leik við Norðmenn og er minntur á það hvað er að vera Íslendingur!
Við mætum mótlæti, við erum undir mestan part leiks og samt berjumst við til lokasekúndu, sem í þessu tilviki skilaði okkur stigi á einum erfiðasta útivelli sem völ er á.Mark fyrir mark, þar til mörkin verða að stigi. Stig fyrir stig, þar til sigurinn er í höfn og andskotinn hafi það, við getum vel unað við silfur. Þetta á þjóðin að taka til sín. Við skulum sko berjast fram í rauðan dauðann. Undir hvaða formerkjum á eftir að koma í ljós, en djöfull skulum við berjast!
1.11.2008 | 13:36
Uppurið traust
Fúkyrðaflaumurinn ætti að öllu jöfnu að standa út úr mér núna, gott ef ekki hringast niður á gólf því svo langur gæti hann verið. Ég hef þó blótað minn kvóta og er núna eftir lausnum að róta.
Hversu marga milljarða erum við að fá lánaða? Hversu mörgum milljörðum sækjumst við eftir? Í hvað fara þessir milljarðar? Muna konur og menn þegar stigið var í pontu og því lýst yfir að ekki skyldi taka lán fyrir þúsundir milljarða því það hefðu stjórnvöld ekki leyfi til að gera? Man einhver það eða er ég stiginn inn í skáldsöguna 1984? Með því væru ófæddar kynslóðir skuldsettar og byrðin á þeirra herðum óverðskulduð. Ég heimta að fá að vita skilyrðin fyrir lánunum. Ég vil vita hvað verður selt undan okkur. Ég vil vita hve hár reikningur per íbúa í landinu verður, ég vil vita hvort þetta sé allt gert til að bjarga fársjúkum gjaldmiðli til handa stórfyrirtækjum en ekki fólki. En helst af öllu vil ég vita að stjórnin fari frá, því hún hefur ekki örðu af trausti frá mér lengur. Ég stend mig að því að horfa á fréttatíma, sjá ráðamenn tjá sig loðið; en það litla sem ekki er loðið býst ég við að sé logið. Þetta er ekki nokkurt viðhorf sem maður á að hafa til leiðtoga sinnar þjóðar. Hvað er því til ráða?
Menn sem ég hef miklar mætur á segja að stjórnarkreppa ofan á bankakreppu og gjaldeyriskreppu væri aðeins leið að glundroða. Ég trúi þeim og ég vil ekki glundroða. Ég vil hins vegar ekki að fólk, sem ég treysti ekki, taki ákvarðanir á þessum viðkvæma punkti sem hefur áhrif út yfir gröf mína og dauða. Ég var ESB sinni en er ekki viss lengur. Ég var neytandi par excellance, fylgdi hnattvæðingu, tók yfirdrátt, flottræfill, ginnkeyptur af útrásinni, öskraði: Ísland best í heimi!
Núna er þó ég vonsvikinn, ráðvilltur og tortrygginn. Tortryggni er eitt það versta. Hún færist frá því að vera eingöngu kennd við stjórnmálamenn og útrásarfólk yfir á fréttmenn, skýrendur atburða og spekúlanta. Ég nenni ekki slíku vænisjúku kjaftæði að hugsa í sífellu hverra hagsmuna hver sé að gæta. Það er skýlaus krafa mín að ég sé ekki matreiddur á lygum og eigi að líða heimskulega eftir á fyrir að hafa trúað lygunum. Hvernig vatt þessi kreppa upp á sig?
Var það ekki að traust ríkti ekki milli banka og því lánaði enginn neinum neitt? Þegar græðgin verður yfirsterkari traustinu hlýtur samfélagið að riða til falls. Það er jú grunnforsenda þess að við erum hópdýr en ekki einfarar. Traust er nauðsyn og ef ég treysti ekki forsjáraðila mínum í sem stærstu samhengi (framkvæmdarvaldi) hlýt ég að finna mér annan. Eigum við ekki að treysta traustið áður en eitthvað verra gerist. Hver ætlar að hugsa um fólkið í landinu? Ekki bara þá fátæku, ekki bara þá ríku, þá veiku, landsbyggðarmenn eða miðborgarbúa, heldur alla! Hvar er leiðtogi þjóðarinnar? Hvar er þann mann að finna sem eining og traust ríkir til? Þann mann verður að finna áður en iðnaðarmenn, kennarar, heimspekingar, rithöfundar, leikarar, dansarar, tónlistarmenn, læknar, auðmenn og fleiri fara að hugsa sér til hreyfings!